Hvernig færðu Facebook fylgjendur þína til að sýna þér meiri áhuga?

Stutta svarið er; vertu frumleg/ur, skapandi, hvetjandi, fyndin/n og fræðandi. Ef þú vilt lengra svarið, haltu þá áfram að lesa.

Samfélagsmiðlar eru frábær leið til að ná til mögulegra viðskiptavina ef farið er rétt að. Það er hins vegar staðreynd að fyrir mikinn fjölda fyrirtækja eru þeir tímaþjófur sem skilar þeim takmörkuðum árangri.

Þegar Facebook leggur mat á viðskiptasíðuna þína þá vegur meðaltal snertihlutfalls meira en fjöldi fylgjenda sem þú hefur. Þess vegna er það alltaf okkar fyrsta ráð til viðskiptavina að einbeita sér að gæðum frekar en magni. Þumalputtareglan hér er, birtu eins oft og þú hefur tök á að birta, gæðafærslur!

Vissir þú að aðeins um 6% fylgjenda þinna að meðaltali sjá færslurnar þínar á veggnum sínum? Í ljósi þessa þarftu virkilega að leggja þig fram til að hámarka snertihlutfall (engagement rate) á færslum. Snertihlutfall er hlutfall fylgjenda sem deilir, skrifar athugasemd eða líkar við færsluna sem þú birtir. Smellir og að „tagga“ telur líka í snertihlutfallsútreikningum en látum það liggja milli hluta.

Vandamálið er að framboð Facebook færslna er endalaust (hefurðu tekið eftir því, þær klárast aldrei) svo að náttúrulega verður fólk vandlátt um hvaða færslur það sýnir áhuga af einhverju tagi. Þess vegna er gott að hafa í huga hvernig fylgjendahópurinn þinn er samsettur. Í öðrum orðum, hvernig var hann fenginn, eru fylgjendur þínir raunverulegt áhugafólk um fyrirtæki þitt eða vörumerki eða eru þeir að mestu afrakstur Facebook leikja?

Svo hvað getur þú gert til að ná meiri athygli og hækkað snertihlutfall á færslunum þínum? Svarið er mjög rökrétt, þú verður að gera þær áhugaverðar, fyndnar eða upplýsandi svo að áðurnefnd 6% fylgjenda sem sjá færsluna séu tilbúnir til að setja smá ást á innleggin þín. Hugsaðu um snjóboltaáhrifin.

Það er ekkert ókeypis í heimi viðskipta, þannig að annað hvort þarftu að leggja þig fram og vera skapandi sem tekur tíma eða borga Facebook fyrir að dreifa færslunni þinni í auglýsingakerfinu þeirra. Jafnvel þá skipta gæði máli þar sem Facebook umbunar auglýsendum gæðaefnis með betri dreifingu, sem þýðir lægra verð á auglýsingum. Við sjáum þetta mjög oft í okkar starfi.

Ekki fylla vegginn þinn með færslum um nýjar vörur, útsölu eða sértilboð. Árangursrík leið til að fylgjendur þínir sýni færslum þínum áhuga er að birta frumlegt, fyndið, hvetjandi eða fræðandi efni á Facebook síðunni þinni. Hugsaðu um rödd þíns fyrirtækis (tone of voice) og tóninn sem þú vilt setja.

Þeir sem eru hugrakkir eða pínulítið djarfir á samfélagsmiðlum fá einfaldlega meiri athygli á sínar færslur en þeir sem fara alltaf öruggu leiðina. Vertu vakandi fyrir því að þurfa að eyða færslum ef þú ert að fá mikið af neikvæðum athugasemdum. Þú getur einnig falið einstaka athugasemdir sem eru óviðeigandi ef þú metur það svo.

Einbeittu þér að myndskeiðum ef þú mögulega getur það. Myndbönd fá að meðaltali miklu hærra snertihlutfall en myndir og texti. Ekki sóa tíma þínum (og annarra) í að birta leiðinlegar færslur á hverjum degi til uppfylla einhvern kvóta eða markmið og byrjaðu að búa til frábært efni. Í hvert skipti sem þú birtir færslu ættirðu að spyrja sjálfan þig; myndi ég sýna þessari færslu áhuga!

Mældu frammistöðu þína, skoðaðu þær færslur sem hafa fengið mestu athyglina frá þínum fylgjendum og lærðu af þeim. Kynntu þér líka hvað keppinautar þínir eru að gera og lærðu af því líka. Skoðaðu t.d. hvað sambærileg fyrirtæki eru að gera í öðrum löndum. Að læra af gögnum og öðrum (samkeppnisaðilum) er einfaldlega frábær leið til að ná betri árangri.

Það er engin ein leið sem hentar öllum þegar kemur að stefnumótun Facebook síðna og því getum við ekki sagt þér hvaða stefna hentar þínu fyrirtæki eða vörumerki best. Þetta er auðvitað mismunandi á milli atvinnugreina og tegundum fyrirtækja.

Það er mjög algegnt að fyrirtæki leggi í mikla vinnu við að halda Facebook síðum lifandi og ferskum í þeirri trú að það sé að skila árangri. Því miður er raunin oft önnur en gögnin (mælingar) eru alltaf besta leiðin til að meta árangur og snertihlutfallið segir þér á skýran hátt hversu áhugasamir fylgjendur þínir eru um efnið sem þú ert að birta.

Helstu atriðin til að hafa í huga til að bæta árangur á Facebook