Efnismarkaðssetning

Skrifaðu áhugavert efni sem fólk tengir við

Af hverju er efnismarkaðssetning mikilvæg?

Markmið efnismarkaðssetningar snýst langoftast um að auka umferð inn á vefsíðu. Í þessari grein förum við aðeins yfir góðar venjur og þá hluti sem ber að forðast við skrif á greinum í markaðslegum tilgangi.

Það sem er mikilvægt að hafa í huga þegar kemur að markaðssetningu í gegnum efnaskrif er að gæði sigra alltaf magn. Það er ekki nóg að einblína á að stafsetning og uppsetning sé rétt, heldur þarf viðfangsefnið að vera áhugavert, vel skrifað og notendagildi þess mikið fyrir þann markhóp sem þú ert að beina efninu til. 

Það er miklu skynsamlegra að skrifa fjórar virkilega flottar greinar á ári en að pósta einni grein á dag til að viðhalda ferskleika á samfélagsmiðlum eða heimasíðu. Hér er erfitt að stytta sér leið þar sem gæðaefni er í langflestum tilfellum afrakstur mikillar rannsóknarvinnu. Í heimi efnismarkaðssetningar er google guðinn sá sem ræður miklu um það hvort að efnið þitt sé virði tíma lesenda og horfir google aðallega til þriggja hluta.

Er efnið þitt viðeigandi?

Í þessu samhengi er átt við að ef notandi google slær ákveðið leitarorð eða spurningu inn á leitarvélina, er greinin þín þá að svara þeirri spurningu sem spurt er að? Það er því gott að rannsaka vel að hverju fólk er að leita og hvað slær fólk inn í leitarvélina. 

Þegar þú ert búinn að ákveða um hvað þú ætlar að skrifa þá eru ýmis tól sem geta aðstoðað þig í þinni ransóknarvinnu eins og Buzzsumo.com og AskThePublic.com en þessi tól eins og flest önnur styðja ekki Íslenska tungumálið og geta líka verið dýr ef þau eru ekki notuð þess meira. 

Þú þarft ekki að leita langt yfir skammt, nýttu þér google leitina og kynntu þér vel þær greinar sem birtast efst og sjáðu hvaða tendgar leitir birtast við þitt leitarorð. Einnig er Keyword Planner í Google Ads mjög gott tól til að finna góð leitarorð í greinina þína.

Er greinin þín það góð að fólk sé tilbúið að deila henni?

Þetta er algjör lykilþáttur, lendingasíður með áhugaverðum greinum eru deildar og sumar þeirra geta farið mjög víða „viral“. Að fólk sé tilbúið að deila greininni þinni án þess að fá greitt fyrir það segir google að greinin sé góð. Þá spyr maður sig, hvaða efni er fólk tilbúið að deila og af hverju? 

Rannsóknir hafa sýnt að um 30% eru líklegir til að deila tilfinningalegu efni, um 20-25% fyndnu efni og um 20% fræðsluefni. Ástæða deilinga er í raun og veru mjög einföld, fólk er tilbúið að deila því efni sem lætur það líta vel út, við erum langflest sjálfhverjar verur sem viljum vaxa í áliti annarra og ef við finnum eitthvað efni á netinu sem við teljum að stuðli að því, þá deilum við. 

Er greinin þín næginlega áhugaverð svo að fólk nenni að lesa til enda?

Það skiptir máli hvað fólk staldrar lengi við greinina þína, því ef að það er mikið brottfall af fólki sem kemur inn á síðuna þína og fer strax aftur út (bounce rate) þá er google að fá þau skilaboð að efnið sé ekki nægilega áhugavert. Mikilvægt er að vera með grípandi fyrirsögn og að byrjun greinarinnar gefa lesandanum góða innsýn í innihald greinarinnar.

Samantekt

Grunninum að góðum greinarskrifum felst í rannsóknarvinnunni. Góður byrjunarpunktur er að velta fyrir sér spurningum eins og hvað, hvar og hvernig. Allt of margir giska á hvaða efni fólk þykir áhugavert eða byggja greinarskrif sín á tilfinningu fyrir því hvað fólk vill lesa um. 

Íhugaðu vel sniðið á greininni. Rannsóknir hafa sýnt að best þrjú greinarsniðin séu

a) listar – topp 10 eitthvað….

b) Ráðgjöf sérfræðinga „100 markaðssérfræðingar eru sammála um…“

c) Leiðarvísir (guide) „Náðu samkeppnisforskoti með efnismarkaðssetningu“….

Algeng mistök sem markaðsfólk gerir er að halda að google vilji að efnið eigi að vera annað hvort mjög stutt eða langt og yfirdrifsmikið. Önnur mýta er að google vilji mikið af fersku efni.

Mundu bara að svara vel þeirri spurningu sem þú lagðir upp með á áhugaverðan og greinargóðan hátt. Fáðu svo álit annarra áður en þú setur meistaraverkið þitt í hinn stafræna heim þar sem lesendur geta hælt þér í hæstu hæðir eða tætt þig í sundur og allt þess á milli.

Að lokum er mikilvægt að árétta að efnismarkaðssetning og leitarvélabestun eru nátengd og erfitt að fjalla um eitt án þess að minnast á hitt. Það eru margir tæknilegir hlutir sem skipta máli þegar horft er til leitarvélabestunar en mikilvægasti liðurinn og grunnstoð árangrar í leitarvélabestun er gott efni í sínum ýmsu sniðum.

Þessi vefsíða notar vefkökur (cookies) til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vefkökur

Þessi vefsíða notar vefkökur (cookies) til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vefkökur.